... Fjöldamorðingjar eru flestir karlmenn. Fyrir utan Myra Hindley veit ég ekki um neinn kvenkyns fjöldamorðingja, hugsanlega fyrir utan bandaríska vændiskonu sem drap þónokkuð af kúnnunum sínum. Það gæti þó hafa verið bíómynd. En ég get nefnt fullt af karlkyns fjöldamorðingjum. Ed Gein sem Slayer gerðu ódauðlegan í "Dead Skin Mask" en Gein fláði fórnarlömb sín og notaði andlitshúðina sem grímu. Hmmm.... Einn getur ekki verið fullt og sá eini sem mér dettur í hug í viðbót er Ted Bundy sem ég man ekkert um nema að hann þótti ótrúlega sjarmerandi og allir voru voða hissa að hann væri viðbjóðslegt skrímsli.
En það var ekki punkturinn. Hvað er það sem fólk fær út úr því að drepa fullt af öðru fólki og geyma það í frystikistu heima hjá sér? Eða að flá fólk og nota andlitshúðina sem grímu? Ég er ekki frá því að rannsóknir sýni að fjöldamorðingjar séu yfirleitt frekar vel greint fólk og að yfirleitt sé ekki um geðveiki að ræða. Tilfinningaleysi? Siðblinda? Flestum hlutum er hægt að velta fyrir sér frá ýmsum sjónarhornum, ræða við aðra til þess að fá fleiri skoðanir og reyna að öðlast einhvers konar skilning eða að öðrum kosti sátt við viðfangsefnið. Eins og t.d. vaxtarrækt. Fyrir mér er hún fáránleg - en ég get þó skilið að það að stefna markvisst að bættum árangri blandað með góðum slatta af hamslausum narcissisma sé eitthvað sem heldur fólki við efnið. Ég get ekki náð þessari sátt og skilningi við hvötina (eða hvatirnar) sem liggja að baki fjöldamorðum. Þegar ég hugsa málið eins langt og ég kemst varðandi fjöldamorð byrjar eitthvað inni í mér að mótmæla - mér verður kalt í hjartanu. En ég er samt forvitin og langar að spá lengra.... Undarlegt