"Einstaklingur með góða sjálfsvitund þekkir styrkleika sína og veikleika. Hann gerir ekki óraunhæfar væntingar eða kröfur til sín eða annarra og á auðvelt með að vera heiðarlegur við sjálfan sig og aðra. Þessi einstaklingur áttar sig á hvötum sínum og tilfinningum og hvernig umhverfið virkar á þessa þætti. Hann á auðvelt með að koma tilfinningum sínum í orð og rökstyðja hvernig þær hafa áhrif á ákvarðanir hans og gjörðir. Þær eru yfirleitt í samræmi við grunngildin sem hann aðhyllist og því er hann ekki líklegur til að láta glepjast af skammtímahagsmunum."
Sit og skrifa ritgerð en langar akkúrat ekkert til þess að gera það. Langar bara að Ragnhildur detti hérna inn um dyrnar svo ég geti lagt frá mér elskulega laptopinn minn og tekið tappann úr rauðvínsflöskunni.
Annars er ritgerðin um frumkvöðla og hlutinn sem ég er að skrifa fjallar um tilfinningagreind sem er alveg áhugavert fyrirbæri. Ég hef grun um að sálfræðimenntaðir vinir mínir hafi ýmsar athugasemdir um þessa kenningu - enda átti ég áhugaverðar samræður við Sóleyju í gær um rannsóknir viðskiptafræðinga á ýmsum fyrirbærum. Verandi verkfræðingur gat ég tekið þátt í að dissa viðskiptafræðingana og aðferðafræði þeirra... en ég hafði alveg samúð og skilning á punktinum sem þeir voru að sýna fram á. Þessa dagana stend ég mig sífellt oftar að því að vera fulltrúi kapitalísks hugsunarháttar og sjónarmiða atvinnurekenda. Ætli ég sé að tapa sálinni? Eða kannski bara glórunni?
Ef vídjó er á dagskrá hjá einhverjum á næstunni - þá get ég ekki mælt nógu mikið með Spellbound sem fjallar um átta börn sem taka þátt í stafsetningarkeppni í Bandaríkjunum. Rakin snilld.