vatnið?
Nei, samt ekki.
Undarlegt hvernig hægt er að vera ótrúlega meðvitaður um nútíðina en samt hleypur tíminn í burtu og maður veltir því fyrir sér hvert hann hafi farið. Undanfarnar vikur hafa verið þannig. Skólinn búinn og þess vegna mun afslappaðra andrúmsloft en samt er alltaf nóg að gera. Kannski bara vegna þess að mér finnst ég þurfa að gera svo margt, nota tímann, nýta tímann, finnast ég ekki vera að kasta honum á glæ.
Hmmm...
Þessar vikur hafa annars verið bæði skemmtilegar og erfiðar.
Síðustu tvær helgar hef ég tekið að mér hlutverk leiðsögumanns um íslenskt næturlíf fyrir tvo aðskilda hópa bandarískra ferðamanna í Dirty Weekend á Íslandi. Annar hópurinn innihélt eintóma repúblikana og við einn þeirra átti ég samræður um allt sem mér finnst að bandarísku þjóðinni og við vorum ekki sammála um einn einasta hlut. Það var samt gaman. Hinn hópurinn innihélt eintóma "commodity brokers"* og einn þeirra sjarmeraði mig upp úr skónum. Verst ég sjarmeraði hann ekki að sama marki. En hey, það verður ekki á allt kosið. Veit reyndar ekki hvor hópurinn var samviskulausari, veðja þó á repúblikanana.
Fór á kvennaráðstefnu á Bifröst síðustu helgi og velti fyrir mér ýmsum flötum á því að vera kona í skemmtilegum félagsskap. Skil ekki alveg hvers vegna staðan er eins og hún er og skil heldur ekki alveg af hverju konur eru ekki almennt reiðari en þær eru, sérstaklega í ljósi nýjustu launamunarfréttanna. Enn ekki búin að ná mér eftir þær.
Afi er búinn að fara inn og út af spítalanum og það hriktir í einni grundvallarstoð tilverunnar. Undarlegt, erfitt og einkennilega hversdagslegt. Erfitt að útskýra hvað ég á við en ég minnist þess að hafa hugsað um rykið á baki kirkjubekkjar fyrir framan mig í jarðarför föður míns.
Einkennilega hversdagslegt. Ekkert er eins en samt er allt eins og áður.
*Ég er ekki viðskiptalega sinnaðri en svo að ég veit ekki hvað það þýðir. Ekki verðbréfamiðlari en ég ímynda mér að þeir selji olíu, gull og salt. Veit einhver hvað þetta þýðir?