Fór í frábærum félagsskap góðra vina og fjölskyldumeðlima á náttúruverndartónleikana í höllinni í gær.
Notaði hléin milli laga til að ræða stóriðjustefnuna og náttúruvernd við sessunauta mína. Þessi umræða, sem sennilega hefur verið meira lifandi hér á landi undanfarin ár vegna Kárahnjúka en annars væri, er áhugaverð fyrir margra hluta sakir. Í gær minntu tónleikahaldarar á að ekki væri of seint að hætta við þessa risavöxnu virkjun.
Ég veit ekki alveg með það. Er það ekki orðið of seint? Dettur fólki í hug að hér verði staðar numið og öll þessi gríðarlega fjárfesting afskrifuð? Mér finnst það barnaleg óskhyggja í besta falli en eiginlega bara heimskulegt.
Fyrir tónleikana var náttúruverndarstefnan rædd í þaula á heimili afmælisbarnsins Bryndísar Ísfoldar. Mál manna þar var að náttúruverndarsinnar berðust ekki strategískri baráttu og kynnu illa að velja sér orrustur. Málflutningar þeirra væri að auki oft á tíðum mjög tilfinningatengdur og þeim gengi illa að fá þá sem ekki fyndu fyrir náttúrutengingu á sitt band.
Mér finnst þetta áhugaverður punktur og hann kom upp í hugann á þessum frábæru, vel skipulögðu tónleikum í gær. Þeir vöktu athygli á málsstaðnum og þeir skemmtu fólki vel en hverju munu þeir skila? Kárahnjúkastífla er risin og álverið á Reyðarfirði verður senn að veruleika. Hvort um er að ræða óafturkræfan glæp gagnvart náttúrunni veit ég ekki. Ég hafði aldrei heyrt um þetta svæði áður en ákveðið var að reisa stífluna og held að svo hafi verið með flesta. Undanfarin þrjú ár hef ég þrisvar farið og skoðað svæðið og afrakstur framkvæmdanna er einmitt sá að nú kemst ég þangað. Fyrir þremur árum var farin öræfasvaðilför á jeppa upp að svæðinu en í sumar fór ég þangað á Froskinum mínum.
Hmmmm... ég er eitthvað að missa þráðinn í þessu bloggi en það sem ég er að reyna að segja er að ég er hlynnt umhverfisvernd og því að menn finni aðrar leiðir til atvinnusköpunar en endalaus álver (þrátt fyrir að ég væri alveg til í að vinna í einu slíku einhvern tímann á ævinni). Í umræðunum í gær kom svo oft fram að það væru ekki náttúruverndarrökin sem væru þungvægust varðandi Kárahnjúka heldur hin hagfræðilegu og út frá þeim væri framkvæmdin mistök. Sammála því.