Kom heim eftir fíííííína karateæfingu, hengdi gallann upp, hellti pepsi maxi í glas, setti No More Shall We Part í spilarann, kveikti á Hildu og settist í sófann, þess albúin að tækla síðasta skólaverkefni þessa vetrar. Og þá áttaði ég mig á því að þessum sólókvöldum mínum í litla kassanum fer fækkandi. Kannski er þetta það síðasta.
Ég hef búið á mörgum stöðum.
Fyrstu ár ævinnar bjó ég á Miðvangi í Hafnarfirði, en ólst að mestu upp í Álfheimunum. Þaðan lá leiðin á Hverfisgötu og svo á Garðastræti. Þaðan fluttist ég svo á Laugaveginn, í fyrstu íbúðina sem ég átti og elskaði. Hennar sakna ég stundum. Síðan fór ég í fangið á mömmu á Duevej í Köben og svo var ég heimilislaus í nokkra mánuði þangað til ég endaði á Hverfisgötu, svo Vesturgötu, svo Grenimel, Bragagötu og þá Granaskjóli. Svo fékk ég kassann og hann var fyrsta heimilið sem var mitt og bara mitt.
Síðan eru liðin þrjú ár.
Hérna lærði ég að vera ein og búa ein og kunna vel við það. Hérna uppgötvaði ég að ég gat sko staðið á mínum eigin fótum, haldið jafnvægi og horft á heiminn í kringum mig. Hérna hef ég upplifað sorgir og gleði, fundið sannleikann og týnt honum aftur, verið kjánaprik og tekið skynsamlegar ákvarðanir. Hérna hef ég hlegið og grátið, gefist upp og svo safnað kjarki fyrir aðra atlögu. En mest hef ég verið hamingjusöm og glöð og haft það svo gott.
Stóri kassinn verður frábær og í hann mun hamingjan vonandi elta mig. En ég mun sakna litla kassans míns og vona að næsti íbúi verði hans verðugur.