Undanfarnar vikur hef ég tekið eftir því að ég er öfundsjúk manneskja.
Flettandi kosningabæklingi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík rak ég augun í að Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir er bara 33 ára og hún á samt risastórt einbýlishús með flottri innréttingu (hún var í Innlit / Útlit um daginn). Ég öfunda líka eina vinkonu mína sem er ofsadugleg í ræktinni og aðra vinkonu fyrir magn fallegra rafmagnstækja á heimilinu. Þá þriðju öfunda ég fyrir að vera í frábærum erlendum háskóla og þá fjórðu fyrir háa stöðu í framsæknu fyrirtæki þar sem ég er viss um að hún er með svimandi laun og ræður og rekur fólk eftir því hvernig veðrið er.
Reglulega reyni ég að minna sjálfa mig á að ég ætli ekki að missa mig í lífsgæðakapphlaupinu og geðveikinni sem mér finnst svo alls ráðandi í íslensku samfélagi. Hvern er ég að reyna að plata?
Ég fletti Húsum & híbýlum, Nýju lífi og fleiri blöðum og hlakka til að geta keypt mér bensíndrekkandi typpakeppnisbíl, stærri íbúð, flottari græjur, betur hönnuð húsgögn, fleiri pör af skóm, meira, stærra, betra og flottara dót sem fyllir lífið mitt af innihaldsleysi. Og svo man ég aftur að ég ætla ekki að taka þátt í helv... kapphlaupinu og reyni að slaka á. Einhvern veginn er ég svo alltaf aftur byrjuð að hlaupa, eða byrjuð að hugsa um að hlaupa, áður en ég veit af.
Ég legg til að við bönnum eitthvað svo ég geti firrt mig ábyrgð á eigin innra tómarúmi. Spurningin er bara hvort við bönnum dótið, að dótið sé auglýst eða fólki með undir milljón á mánuði að eiga dót?
Áhugaverð færsla. Þú verður að leita í sjálfinu og komast að því hvað þú ert að næra með þessu.
Posted by: Júlía Rós | Tuesday, May 30, 2006 at 08:27
"einmitt"
Posted by: Bjössi | Tuesday, May 30, 2006 at 14:58
Hverjum er ekki sama þó einhver eigi splunkunýtt einbýlishús í Grafarholtinu, Range Rover jeppa, kort í WC og fellihýsi?
Viðkomandi verður ekki minnst fyrir veraldlegar eigur hans heldur innri mann. Þannig að þegar allt kemur til alls þá ættu aðrir frekar að öfunda þig Lína mín frekar en þú þá, fyrir hvað þú ert klár, sniðug og heilsteypt manneskja með skemmtilegar skoðanir.
Þó ég eigi ekkert dót nema hjól og sjónvarp þá er ég allavega meðlimur í "öfundum Línu" hópnum.
Posted by: Ragnhildur Thordardottir | Friday, June 02, 2006 at 09:27