Eftir þriggja vikna afslöppun, sól, göngu, HM gláp, bjórdrykkju, samræður við furðulegt fólk, myndavélamissi og margt margt fleira eru víraði álfurinn og HMM komin aftur á klakann kalda.
Ferðalagið var frábært og skötuhjúin komust að því að þau eru prýðilegir ferðafélagar. Þau eru reyndar bæði frekar grumpy á morgnana, rétt fyrir flugtak og stuttu eftir lendingu. Að öðru leyti er lundarfarið með ágætum.
Berlín - "ég vaknaði ekkert vegna kulda í nótt"
Fyrstu fjórum dögum ferðalagsins var varið í höfuðstað Þýskalands. Þangað mætti parið illa sofið í grátt íslenskt veður á Hvítasunnudag. Hótelherbergið, sennilega það ódýrasta í öllu Þýskalandi, var ekki upp á marga fiska. Eiginlega bara ekki upp á neinn fisk og þar var ískalt enda hætta Þjóðverjar að kynda 1. júní, burtséð frá því hvernig veðrið er. Staðsetningin var hins vegar fín, steinsnar frá Potsdamer Platz.
Fyrsta daginn ráfuðum við um án þess að hafa nokkra hugmynd um hvernig borgin virkaði, hvar væri gaman að vera og hvað við ættum að gera. Vorum ekki alveg að skilja hvers vegna fólk er svona hrifið af Berlín. Það breyttist þó á næstu dögum enda lentum við í götukarnivali og enduðum á subbulegasta rokkklúbbnum í Kreuzberg. Þar réð vertinn Michael ríkjum, indælismaður, Austurþjóðverji sem kallaði ekki allt ömmu sínu og var stórhrifinn af íslenska parinu. Einn bjór varð að öðrum og ... eftir sumbl fram eftir nóttu höfðum við kynnst flestum fastagestum staðarins, skemmt okkur stórvel og skipt um skoðun á borginni.
Næstu dögum vörðum við í skókaup fyrir Matta, enda fengum við sérstakar leiðbeiningar um hvar í Berlín skór #48 fengjust, leigðum okkur hjól og fórum í Prenzlauer Berg í litla búð þar sem þýskir körfuknattleiksmenn versla. Komumst um leið að því að Berlín skuli upplifast á hjóli. Við áttum líka matarupplifun ævinnar á stað sem heitir M.A.O.A., sem við getum ekki mælt nógu mikið með.
París - þar sem stórt kókglas kostar 600 kall
Eftir síðasta daginn í Berlín, sem að megninu var varið í slagsmál við Kagúfugl í dýragarðinum þar, komum við til "borgar ástarinnar" um nótt. Því verður ekki neitað að borgin er töfrandi, sérstaklega að kvöldi, með ljósadýrð og iðandi mannlífi. Hótelherbergið okkar var af örsmæðargerð en þar var þó bað og sjónvarp, mikil framför frá því í Berlín.
Fyrsta daginn okkar röltum við út á veitingastað þar sem Sigurlína fékk sér hvítvínsglas með morgun- / hádegismatnum. Matti fékk vondan mat, en það var einmitt þema Parísar fyrir hann. Líkt og í Berlín fóru fyrstu dagarnir í að átta sig á legu landsins og helstu kennileitum. Eftir hvítvínsglas hádegisins fylgdu nokkrir bjórar á aðskiljanlegustu kaffihúsum með þeim afleiðingum að undirrituð var orðin rallhálf um fjögurleytið og þurfti að stramma sig af yfir einum af þeim aragrúa fótboltaleikja sem parið sá í þessari ferð. Það er snilld að ferðast þegar HM í gangi, því ef ekkert sniðugt er að gera er alltaf leikur í stöðunni að setjast inn á bar og horfa á boltann.
Hitinn í París var í kringum 35°C alla dagana, okkur til mismikillar ánægju, þá sérstaklega á nóttunni. Helsta afrek okkar skötuhjúanna í París voru kaupin á glæsilegum nýjum fjölskyldumeðlim, fallegu PSP vélinni okkar, sem skipar núna heiðurssess í híbýlum okkar. Sigurlína er afspyrnuslök í bílaleikjum, en það stendur til bóta.
Valencia - endurfundir við Tellinas
Víraði álfurinn var fjögurra ára þegar hann fór fyrst til útlanda með móður sinni. Þar dvaldist hann á El Remo í Torremolinos á Costa del Sol, lék sér á ströndinni og eignaðist sína fyrstu ást. Nefnilega skelfisk. Ein tegund skeljanna ber þó af öðrum, en það eru fiðrildislaga smáskeljar sem spænskir kalla Tellinas, borðaðar með sítrónu, hvítlauk og brauði. Þessar skeljar dreymir álfinn reglulega, en hann hafði, fyrir þessa ferð, ekki lagt sér þær til munns í ein fimmtán ár.
Þegar við komum til Valencia á miðvikudagsmorgni stóð Margrét Útsala, stóra systir álfsins, hoppandi af kæti í biðsal flugvallarins, sólbrún og óðamála og ofsaglöð að fá parið í heimsókn. Henni fylgdum við í gímaldið sem hún bjó ein í, rétt fyrir utan miðbæ Valencia, sögðum ferðasöguna og fengum fréttir af lífi skólastúlkunnar í Valencia.
Valencia er þriðja stærsta borg Spánar með í kringum 800.000 íbúa. Á henni er þó einhvern veginn ekki stórborgarbragur, heldur virkar hún meira sem vinalegur bær við ströndina. Miðborgin er falleg og þar er að finna einhvern þann allraglæsilegasta matvælamarkað sem ég hef nokkurn tíma séð.
Ferskasti matur í heimi, grænmeti, ávextir, kjöt og fiskur á frábæru verði. Þangað héldu HMM og álfurinn í leit að tellinas, höfðu erindi sem erfiði og buðu Súlu og Sherry hinni bandarísku, í skeljaveislu til að launa fyrir hádegisverðarveislu sem haldin var deginum áður. Spánverjar kunna nefnilega að lifa, borða þríréttað í hádeginu og leggja sig síðan áður en þeir halda áfram að vinna síðdegis. Það væri hægt að venjast því.
Dögunum í Valencia var varið í mat og drykk, samræður og boltagláp, strandferð og safnaskoðun en þar er að finna stórfallegan vísindagarð hannaðan af Santiago Calatrava með sjávardýrasafni, IMAX bíói, vísindasýningum og veitingastöðum. Massaflott. Kvöldunum var svo varið á veitingastöðum og stundum á börum og meira að segja lentum við óvart í steggjapartýi bresks eðlisfræðings sem stóð langt fram á nótt.
Að frábærri viku lokinni var komið að síðasta legg ferðarinnar
Madrid - borgin sem aldrei sefur
Við komum með lest til Madridar um kvöld og komum okkur dálítið slæpt upp á hótel. Ef við héldum að herbergið í París væri lítið, þá var það misskilningur. Það var herbergið okkar í Madríd sem var pínulítið. Bara svo það sé á hreinu.
Hentum töskunum inn í herbergi og skunduðum á torg í nágrenninu fyrir skyldubjórinn. Alls staðar fólk á ferli þrátt fyrir að komið væri fram yfir miðnætti, heilu fjölskyldurnar sitjandi á veitingastöðum, borðandi tapas, spjallandi og hlæjandi.
Æ, hvað Reykjavík er köld og mannlaus í samanburði.
Komumst að því að morgni næsta dags að við vorum alveg downtown. Snilld. Röltum um verslunargötur og veitingastaði, skoðuðum, kvörtuðum yfir hitanum, horfðum á boltann, reyndum að kaupa gjafir, týndumst í fyrsta og eina skiptið í ferðinni, vegna örrifrildis um buxur og fundumst örvæntingarfull þremur mínútum seinna, öll buxnarifrildi löngu gleymd. Afskaplega kómískt.
Ákváðum að slá botninn í ferðina með almennilegu djammi, snerum sólarhringnum við, eignuðumst (mis)vafasama vini, lentum í tveimur þjófum sama kvöldið, öðrum sem mistókst að stela veski HMM og hinum sem tókst að stela myndavélinni minni og um leið frábæru myndaseríunni okkar : (. Madrid samt algjört æði og ég hlakka til að koma þangað aftur.
Frábær ferð í alla staði en líka gott að vera komin heim :)