Ég er þekkingarstarfsmaður sem les tölvupóstinn á kvöldin uppi í sófa á milli þess sem ég blogga, undirbý kennslu næsta dags eða læri. Þegar ég ligg með höfuðið á koddanum á kvöldin synda alls kyns hugsanir um höfuðið á mér og þær snúast um allt sem er að gerast í lífinu þá stundina.
Þegar ég sit við skrifborðið mitt í vinnunni er ég að vinna. En ég ætla hvorki að reyna að ljúga því að sjálfri mér né ykkur að það sé það eina sem ég er að gera. Ég er multitasking tuttugustuogfyrstualdarbarn og get ekki dregið skýrar línur milli vinnu og frítíma.
Ef þú, lesandi góður, ert eins og ég, þá kannastu við dagana þar sem þú kemur engu í verk. Þar sem þú hefur hvert verkið á fætur öðru, en ekkert gerist. Engir tölvupóstar eru sendir, engar skýrslur skrifaðar, engar upplýsingar meltar eða þeim miðlað. Þú manst meira að segja ekki hvað þú last af skemmtilegu bloggi...
Á þessum dögum mæli ég með vinnu.
Ekki þekkingarstarfsmannsútgáfunni af vinnu sem er óáþreifanleg - heldur gamaldagsvinnu með höndunum. Á föstudaginn kemur vinn ég minn síðasta dag hjá Högum. Þess vegna hafði ég, þegar ég var ekki búin að afkasta neinu, en byrja á mörgu um hádegisbil, ærna ástæðu til þess að tæta fullt af skjölum, pakka öðrum í kassa, sortera, bera, mása og svitna. Og sjá, einum og hálfum tíma síðar er allt tilbúið í kassa, það er vond lykt af mér og ég sé árangur erfiðisins.
Ég þríf gjarnan eldhúsið. Ef ég er ekki kominn niður á jörðina eftir það tek ég næstu herbergi við.
Þetta virkar! V.I.R.K.A.R.
Posted by: Krilli | Tuesday, October 24, 2006 at 16:56
Hæ snillingur,
ferlega var gaman að hitta þig á föstudag, fann sýndar-þig í gegnum Bryndísi og er búin að linka. Til hamingju með að vera hætt í vinnunni!
Posted by: Silja | Sunday, October 29, 2006 at 17:38