Á þessari mynd (sem tekin er með nýja fallega línusímanum) sjást tveir holir klakar fullir af vodka. Hún er tekin á Absolut ísbarnum sem finna má í höfuðstað Svíþjóðar. Þar hefur víraði álfurinn alið manninn frá því á miðvikudaginn og numið verkefnastjórnun.
Myndin er við hæfi því einn fyrirlesturinn var einmitt um nýlega markaðsherferð Absolut í samstarfi við Lenny Kravitz. Súpertöff fyrirlestur sem ofursvöl sænsk stúlka á mínum aldri hélt um hvernig unnið er hjá þessum uppáhaldsvodkaframleiðanda mínum. Hún var týpan í svarta pilsinu, stígvélunum og rúllukragabol með týpugleraugu sem ég hef alltaf dáðst svo að. Í lok fyrirlestrar skundaði ég í búð og keypti mér dýrustu svörtu rúllukragapeysuna sem fannst í Stokkhólmi.
Hér var líka haldinn fyrirlestur um samvinnu milli sænsku geimferðastofnunarinnar, sem einmitt sendi könnunarfar til tunglsins í fyrra, við ESA, evrópsku geimferðastofnunina. Þá gladdist álfurinn ógurlega, enda var fyrirlesarinn enginn annar en Peter eitthvað, verkefnastjóri ársins í Svíþjóð í fyrra og verkfræðingur með helling af people skills, en það er einmitt sorglega sjaldgæf blanda.
Ráðstefnugestir voru örlítið penni en Fanfest gestirnir í síðustu viku og til að byrja með leist mér ekki á blikuna og hélt ég ætti í vændum leiðinlega sænska daga. Annað kom þó á daginn, fyrirlestrarnir voru margir mjög góðir og samferðamenn mínir á ráðstefnunni hið indælasta fólk.
Stokkhólmur er falleg, þrátt fyrir að ég hafi ekki séð mikið af henni, enda hefur seinni hluti laugardags verið eini frítíminn sem ég hef átt. Honum var varið í stutt rölt um Gamla Stan, þar sem heimsóttar voru tvær nördabúðir. Þar keypti álfurinn Game of Thrones boardgame ið og hvíslaði feimnislega að afgreiðslumanni verslunarinnar að hann væri að vinna með White Wolf. Hann var því miður ekki suitably impressed...
Nú er förinni aftur heitið á Gamla Stan í síðasta kvöldverð ferðarinnar. Næsta ferð er í bígerð og þá á vinnuvegum. Hausinn er fullur af hugmyndum og to do listinn er langur. Ég er komin heim, þó ég sé úti...
Velkomin heim! Þú hefur varla þurft rúllukragapeysu til að vera svalasta konan á staðnum (ég meina það, verkfræðingahittingur í Svíþjóð...) en til hamingju með þau góðu kaup og önnur álíka í ferðinni. Ég hlakka til að vera kynnt fyrir Game of Thrones spilinu um jólin! Með allri nýfengnu strategíu kunnáttunni minni þá mun ég mala þig;-)
Posted by: Birnan | Monday, November 20, 2006 at 13:54
Nýtt markmið fyrir þessa vinnu - klæðnaður :)
Posted by: Júlía Rós | Tuesday, November 21, 2006 at 13:12