...er gott.
Undanfarnar vikur hefur fátt komist að annað en vinnan, nördismi og fjölskyldumál. Afi er búinn að vera veikur og það hefur fengið mig til að hugsa.
Afi og amma í Hafnarfirði hafa verið stofnun í mínu lífi svo lengi sem ég man. Þegar ég var lítill nýlæs púki sat ég oftar en ekki í sófanum þeirra með Morgan Kane, Tom Swift eða Horfna góðhesta og drakk í mig síðu eftir síðu.
Mikið sakna ég þess að lesa eins og ég gerði þá.
Þegar ég gisti hjá þeim um helgar fórum við amma saman með bænirnar og stundum skreið ég upp í til þeirra þegar ég vildi ekki vera ein. Um daginn lágum við svo aftur í þessu rúmi, ég, afi og amma þegar afi kom stuttlega heim af spítalanum. Þá voru hlutverkin ekki eins skýr og fyrir rúmum tuttugu árum. Það var sárt en samt svo gott.
Þegar minn hestakonuferill hófst um fimm ára aldurinn var amma að hætta að fara á bak. Þá fórum við afi á Mósa og Glóa, sem hétu reyndar Faxi og Glófaxi, endalausa reiðtúra um nágrenni Hafnarfjarðar þar sem mér var kennt að umgangast skepnur og náttúruna af virðingu. Ég vildi að ég hefði tekið betur eftir.
Árin líða og elli kerling lætur ekki að sér hæða. Hún hefur læst klónum í afa og ömmu og hægt og rólega tekur hún þau frá mér. Dag frá degi eldast þau og þurfa meira á okkur afkomendunum að halda.Mér finnst það erfitt og sárt en mér finnst gott að vera til staðar.
Þau eiga ekkert annað skilið.
Fallegt....
Posted by: Sóley | Saturday, January 27, 2007 at 00:30
Sæta mín
Mikið öfunda ég þig af þessum tíma með þeim, þó það sé erfitt og sárt oft á tíðum. Það er ómetanlegt að hafa tækifæri til að gefa til baka til þeirra sem hafa verið baklandið manns í svo langan tíma.
Skilaðu innilegustu kveðjum til þeirra beggja frá okkur mæðgum.
Knús og kram til þín :)
Posted by: skrimslan | Saturday, January 27, 2007 at 14:29