Sé vond lykt af mér þessa dagana á það sér eðlilegar skýringar. Nefnilega þær að verið er að mála íbúðina mína svo ekki get ég farið í sturtu þar. Í málningarstússinu hef ég neyðst til að flytjast úr 101 í 107 þar sem við Bismark gætum íbúðar stóra bróður. Þar er hins vegar verið að múra baðherbergið og af þeim sökum heldur ekki hægt að fara í sturtu. Þrisvar í viku fer ég alla jafna í sturtu í Þórshamri* en ... þar er verið að gera við sturturnar þessa dagana.
Eftir að hafa sleppt minni ómissandi morgunsturtu í gær og þvegið hárið á mér í eldhúsvaskinum hugsaði ég mér gott til glóðarinnar að bregða mér í ljós eftir karateæfingu gærkvöldsins. Ekki dugði minna en að blása til hópferðar og við Ragnhildur ákváðum að hittast rúmlega níu á sólbaðsstofunni á Rauðarárstíg. Yours truly var glæsilega klædd í karatebuxur og hvítan stuttermabol og mjög fersk eftir góða æfingu.
Þegar á Rauðarárstíginn var komið reyndist vera búið að loka Sólbaðsstofunni Bliss. Nú voru góð ráð dýr. Stúlkurnar mundu eftir sólbaðsstofu rétt við Austurvöll og ákváðu að bruna þangað. Engin stæði reyndust í nágrenninu svo ákveðið var að keyra í Fenin til að komast í Toppsól.
Toppsól er örugglega löngu flutt og helv... gatnakerfi er þannig að í stað þess að taka strikið niður í bæ voru stúlkurnar í Froskinum allt í einu á leið í Breiðholtið.
"Mjóddin" sagði Ragnhildur, "þar hljóta að vera einhverjar sólbaðsstofur." Stefnan var því tekin þangað - en viðsjált gatnakerfið sá við okkur svo við vorum allt í einu á leiðinni í Smárahelvítið.
"Hey, ég veit m.a.s. um sólbaðsstofu í Lindunum" sagði ég sigri hrósandi og við þangað. En nei, þar var eins og hálfs tíma bið að komast í bekkina svo við lögðum aftur í hann og rákum eiginlega strax augun í skilti annarrrar sólbaðsstofu. Þegar þangað var komið var líka allt upptekið svo... við hringdum í 118 til að fá númerið og panta tíma í 101 ljós, stofunni við Austurvöll sem við höfðum í flónsku okkar keyrt fram hjá fyrr um kvöldið.
Við komumst þangað tiltölulega áfallalaust - en engin stæði. Eftir kortersrúnt var tekin ákvörðun um að reyna að troða Froskinum í eina stæðið í póstnúmeri 101, með þeim árangri að Froskurinn ýtti aðeins í bílinn fyrir aftan. Til allrar hamingju skemmdist ekkert nema egó bílstjórans.
Klukkutíma eftir að upphaflega átti að fara í ljós, lögðust Sigurlína og Ragnhildur í bekkina á 101 Ljós. Ekki fór betur en svo að Sigurlína er illa brennd á viðkvæmum sitjandanum.
Mórall sögunnar: Maðurinn á efri hæðinni hefur einkennilegan húmor.
*þessar þrjár sturtur bætast við sjö reglulegar morgunsturtur - ég er ekki sóði.