Það er hægt að hugsa svo margt.
Hugsanirnar á fleygiferð í hausnum mínum, festa sig varla við hugtök eins og fortíð, framtíð og nútíð.
Átakshelgi í verkefnastjórnun næstu helgi, en þá ætlum við Einar að troða fjögurra vikna fróðleik inn í höfuð nemenda okkar á einni helgi. Svo ég hugsa um það á milljón og þá sérstaklega áhættu í verkefnum. Afspyrnuspennandi pælingar.
Þá hef ég minni tíma til að hugsa um konfektmola komandi helgar, nefnilega tónleika meistara Cave í Laugardalshöll. Maðurinn sem spilar á hjartastrengina mína eins og enginn annar, ekki einu sinni Stuart Staples með Tindersticks, er að koma og spila fyrir mig því það er of langt síðan síðast.
Bismark og Milena Kunderova hvæsa vinalega hvort á annað og HMM sefur svefni hinna réttlátu. Kertin brenna í gluggunum og stúlkan í stóra kassanum hlustar á þögnina rofna af fingraslætti á lyklaborð.
Í höfði stúlkurnnar í stóra kassanum eru líka áhugaverðar leynihugsanir sem keppa við æsispennandi átakshelgina. Það er of snemmt að opinbera þær en þær langar út. Vonandi þurfa þær ekki að dúsa of lengi inni.