Þessa dagana eru risastór pioneer heyrnartól bestu vinir mínir, ásamt Jack Johnson sem ég virðist ófær um að fá ógeð á. Breytti samt aðeins út af vananum í morgun og ákvað að hlusta á útvarpið í staðinn fyrir Jack.
Fyrst hlustaði ég á Dag B. og Gísla Martein þusa um strætó. Það var jafnskemmtilegt og að fara í endajaxlatöku. Svo heyrði ég Vilhjálm Þ. skella skuldinni af einhverju Sundabrautarkynningarklúðri á fyrrum valdhafa í borginni. Mikið held ég að það verði hentug afsökun fyrir nýju borgarstjórnina næstu vikur og mánuði.
En já, ég er kannski ekkert ofsalega mikil áhugamanneskja um pólitíska umræðu, og ekki endilega sú sem er mest með á nótunum, en eiginlega í hvert skipti sem ég hlusta á einhverja umræðu verð ég pirruð. Finnst eins og allir séu í með-eða-á-móti leiknum. Að umræðan snúist um að skora stig á kostnað andstæðinganna frekar en að vinna að bættum hag þegnanna.
Svo kemur skýrsla nefndar um matvælaverð og þar er sýnt fram á að með lækkun eða afnámi innflutningstolla má lækka matarkostnað umtalsvert á ársgrundvelli. Þá kemur forsætisráðherra fram og segir að vegna fákeppni á matvörumarkaðnum sé ekkert endilega víst að þessi lækkun muni skila sér í vasa neytenda. Jahá - vissulega eru fáir um hituna á íslenskum matvörumarkaði en halda menn að það sé ekki samkeppni á milli stóru aðilana á markaðinum? Hvað með verðstríðið sem geisaði hér á síðasta ári?
Nei, stöndum vörð um íslenskan landbúnað á kostnað fólksins í landinum og treystum ekki markaðshagkerfinu, því hinu sama og flokkur forsætisráðherra hefur helst stuðlað að, til að gera það sem það á að gera, tryggja samkeppni.
Af ofanskrifuðu mætti álykta að ég væri mjög á móti sjálfstæðisflokknum og hollari undir vinstri vænginn og ég vildi að það væri satt. En svo er ekki, ekkert af framlínufólki vinstra liðsins nær eyrum mínum eða athygli, og mig langar heldur ekkert að senda atkvæðið mitt þangað.
En maður á að kjósa, á að taka afstöðu, á að hafa skoðanir, finnast sér misboðið eða vera ánægður. Og þegar allt kemur til alls er þetta litla land algjör útópía. Sérstaklega þegar sólin skín inn um gluggann minn og sprengjunum rignir yfir París austursins og við stjórnvölinn í strætónum jörð sitja ljúfmenni eins og Bush og Blair.
Eftir hálftíma af útvarpinu fékk ég nóg - og Jack er aftur í eyrunum.