Eftir að Nick Cave hætti að vera dópisti, gifti sig og eignaðist börn, snarminnkuðu gæðin á tónlistinni hans og hann fór að syngja um ást, frið og hamingju. Sem betur fer vandist hann ástandinu, eða hjónabandið versnaði og hann náði sér á strik í lagasmíðunum á ný.
Mér finnst ég eiga við sama vanda að stríða. Síðan að HMM kom til sögunnar hef ég mestmegnis gengið um með bjánalegt bros á andlitinu og bloggið mitt hefur fengið að líða fyrir það. Ég er hætt að gera gloríur á Ölstofunni sem áður var mitt annað heimili en ég hef varla stigið fæti inn á í marga mánuði. Hvorki James Bond (sem ég var að frétta að sé bæði orðinn feitur og pabbi), draugurinn sem stelur nöfnum, né aðrir karlmenn, hreyfa við álfahjartanu, enda er það í tryggri vörslu téðs HMM.
Ég myndi segja að ég væri talsverð áhugamanneskja um blogg, hvort sem um er að ræða mitt eigið eða annarra, og ég er ansi vel með á nótunum í lífi fólks sem hefur ekki hugmynd um hver ég er. Ég veit hvernig óbyggt hús eins bloggarans kemur til með að líta út, hvernig annar ræður ekki við hitann þar sem hann býr, hver var að skilja og flytja út og hver á bilaðan víbrador. Sumir þessara þekkjast innbyrðis og aðrir ekki.
Ég þekki fullt af fólki sem hefur engan áhuga á bloggi og skilur ekki þessa þörf til að skyggnast inn í líf annarra. Svona svipað og ég skil ekki hvernig fólk verður hooked á sápuóperum. Það er reyndar ekki bara forvitni um líf og hagi annarra sem fær mig til að lesa blogg heldur frekar...
Hvernig er best að orða það?
Það er þrennt sem skiptir máli - tilfinning fyrir stíl, hversu sterkt karakterinn skín í gegnum skrifin og svo skoðanir og lífsviðhorf. Þrátt fyrir málfarsfasisma af verstu gerð fyrirgef ég bloggara að misþyrma málinu, eða kannski frekar að stafsetja eitt og eitt orð vitlaust, ef hann bætir það upp með því að hafa frá einhverju áhugaverðu að segja.
Anyways, þetta var smáútúrdúr. Punkturinn er sumsé sá að ég týndi bloggmojoinu og ég vil gjarnan fá það til baka.